Mbl - Gagnrýni

Fimmtudaginn 9. júní, 2005 - Myndlist

MYNDLIST - Hallgrímskirkja

Skrásetningaráráttan

Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson

 

Sýningin er aðgengileg á opnunartíma kirkjunnar. Sýningu lýkur 15. ágúst 2005

 

MANNESKJAN hefur lengi verið haldin þeirri áráttu að skrá umhverfi sitt í eftirmyndir. Algengastar eru fjölskyldumyndir þar sem einhver fjölskyldumeðlimur skrásetur augnablik sem hann/hún vill geyma. Augnablikið er þó aldrei skrásett í raunverunni. Aðeins minningin sem kann að kvikna í bjagaðri mynd á allt öðru augnabliki þegar tíminn hefur spilað sína rullu og hann/hún sér myndina löngu síðar. Hjá mörgum eru fyrirmyndir í raun mótíf til að skrásetja tíma í svokölluðum "time-lapse"-ljósmyndum. Slíkt er algengt í samtímalistum. En það eru ekki einungis atvinnumenn í myndlist sem tileinka sér þess háttar skrásetningar.
Það er magnað atriði í kvikmyndinni Smoke (Reykur) sem Wayne Wang gerði árið 1995, þegar tóbakssalinn Auggie (Harvey Keitel) afþakkar boð vinar síns Pauls Benjamins (William Hurt) um að fara með honum í ferðalag á þeim forsendum að hann hafi tekið ljósmyndir á sama stað fyrir utan búð sína á hverjum degi á sama tíma dags frá sama sjónarhorni í 11 ár. Áráttan er þá þvílík að hann getur ekki sleppt úr degi því þá er öll skrásetningin ónýt. Auggie getur ekki skýrt út hvers vegna hann tekur myndirnar. Hann bara gerir það.

Þau eru mörg dæmin um fólk sem hefur tileinkað sér álíka skapandi ritúal og Auggie í Smoke. Í turni Hallgrímskirkju stendur nú yfir sýning á ljósmyndum sem hjónin Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson hafa tekið af Hallgrímskirkju frá sama sjónarhorni út um eldhúsgluggann sinn í 15 ár. Líkt og Auggie að þá eru hjónin ekki atvinnumenn í greininni, hann er fiskifræðingur og hún textílhönnuður. En það gefur gjörningnum þó ekkert minna vægi. Hugmynd hefur kviknað og henni haldið til streitu vegna sköpunarþarfar og tilvistarlegra og fagurfræðilegra spurninga. Útkoman er "time-lapse"-ljósmyndir með Hallgrímskirkju í forgrunni.

Ólíkt Auggie þá mynda hjónin ekki mótífið eftir ákveðinni tímasetningu heldur þegar breytingar á umhverfi vekja áhuga þeirra. Þessi mismunur á nálgun byggist á fagurfræðilegri afstöðu. Ákvörðun Auggies að láta tilviljunina ráða og miða myndatökur við tímasetningu við götuhorn gefur til kynna vissa fagurfræðilega sýn á hversdagsleikann á meðan Hrönn og Þórólfur heillast af mikilfengleika í náttúrunni og velja oft á tíðum hádramatísk augnablik til að festa á mynd; blóðrautt sólarlag, glæsilega flugelda, þétta þoku o.s.frv. þar sem kirkjan stendur svo stöðug sem viðmiðun.

Í Smoke hafði Auggie tekið yfir 4000 myndir á 11 árum og geymt í tímaröð í myndaalbúmum. Ekki veit ég hversu margar myndir Hrönn og Þórólfur hafa tekið af kirkjunni en á sýningunni eru þær 86 þótt nóg pláss sé í turninum fyrir annað eins. Kannski eru þetta allar myndirnar sem þau eiga. En þó þykir mér líklegt að þau hafi tekið fleiri myndir á 15 ára tímabili og valið úr þeim fyrir sýninguna. Ólíkt Auggie að þá skiptir valið Hrönn og Þórólf miklu máli. Sumar myndirnar eru stærri en aðrar, fá þannig meira vægi á sýningunni og sýningargestir eru beðnir um að velja sína uppáhaldsmynd og rita númer hennar um leið og þeir rita nafn sitt í gestabók, eins og í skoðanakönnun. Virðast Hrönn og Þórólfur þá leita að einhverri fullkomnun í skrásetningunni, einu augnabliki sem er fallegra eða mikilfenglegra en annað augnablik. Þau eru vissulega mörg falleg augnablikin sem hjónin hafa fest á mynd út um eldhúsgluggann sinn, en það er þó heildin sem skiptir meginmáli. Mynd 1-86.

 

Jón B.K. Ransu

 

 mbl gagnryni

bottom

Staðsetning

Lokastíg 28

101 Reykjavík

Opnunartími

Mán - Lau: 09:00-21:00

Sun: 11:00-21:00

Upplýsingar

S: 466-2828