Mbl - Café Loki

mbl cafe loki

Hefðin yljar hjartarótum
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26. OKTÓBER 2008

 

Alíslenskt kaffihús við Lokastíg hefur fengið góðar viðtökur frá því það var opnað í sumar.
Ilminn af íslenskri kjötsúpu og nýbökuðu brauði leggur langar leiðir

Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur


Í glaðlegu gulu húsi, á horni Lokastígs og Njarðargötu, hefur Hrönn Vilhelmsdóttir rekið Café Loka frá því í júlí. Kaffihúsið er gætt þeirri sérstöðu að það býður einvörðungu upp á íslenskan mat; heimabökuðu flatkökurnar og rúgbrauðið eru eyjur í hafsjó „ciabatta“-samloka og „bruschetta“ með mozzarella miðbæjarins. „Strax á fyrsta degi í sumar komu útlendingarnir. Margir virðast hafa beðið lengi eftir svona stað,“ segir Hrönn en tekið er á móti gestum með skilti sem býður þá velkomna á 25 tungumálum. Íslendingar hafa líka tekið vel við sér. „Við finnum það vel hvað unga fólkið er hrifið af því sem við erum að gera, ekki síður en eldra fólk,“ segir hún. Eiginmaður Hrannar, Þórólfur Már Antonsson fiskifræðingur, er bakarameistari hússins og þykir hann sérstaklega fær í að baka flatbrauð. „Maðurinn minn er snillingur í að gera flatbrauð. Tengdamamma kenndi honum handbragðið fyrir mörgum árum,“ segir Hrönn en Þórólfur er sonur Sigurlaugar Sveinsdóttur og Antons Guðlaugssonar á Dalvík og er uppskriftin þaðan.
Nágranninn Hallgrímskirkja
„Við fengum þetta frábæra hús beint á móti Hallgrímskirkju fyrir reksturinn. Þarna í kring var engin þjónusta fyrir þá sem koma að skoða kirkjuna. Í erlendum borgum er alls staðar hægt að setjast niður á kaffihúsi við merkar kirkjur,“ segir Hrönn en Café Loki er á annarri hæð hússins með góðu útsýni yfir Hallgrímskirkju og nágrenni. Kaffihúsið er látlaust, bjart og létt en þó með persónulegum skreytingum. Gardínurnar eru í anda umhverfisins með myndum af Hallgrímskirkju, styttu Leifs heppna og rjúkandi heitum kaffibollum. Til viðbótar er lögð áhersla á tengingu við Hallgrímskirkju með því að bjóða til sölu póstkort með myndum af kirkjunni í hinum ýmsu birtu- og árstíðarbúningum. Listrænu tilburðirnir skýrast af því að kaffihúsið er ekki eina starfsemin í húsinu því Hrönn, sem er textílhönnuður, rekur verslunina Textíl á jarðhæð hússins. Hún hefur rekið verkstæði og verslun um árabil og er m.a. þekkt fyrir litrík ungbarnasængurföt. Til að kóróna samhljóminn búa Hrönn og Þórólfur svo í risi hússins.
Fagurfræðin í fyrirrúmi
Café Loki leggur áherslu á íslenskt smurbrauð. „Við erum með okkar gamla góða rúg- og flatbrauð, smyrjum sneiðarnar með íslensku áleggi og útfærum þær á fallegan hátt,“ segir Hrönn og leggur áherslu á að maturinn eigi líka að vera fyrir augað.
„Þetta er ekki gamaldags þó við notum gamla, góða hráefnið.“ Meðal rétta á matseðlinum er heimabakað rúgbrauð með plokkfiski og graslauk, flatkaka bökuð yfir eldi með sviðasultu, rófustöppu og baunasalati, íslensk kjötsúpa, skyr með rjómablandi, kleinur og ástarpungar. „Ég held að það sé minnimáttarkennd hjá Íslendingum að bjóða alltaf upp á þetta „panini“. Við erum sífellt að horfa út á við. Nú er tíminn til að líta sér nær og hlúa að því sem íslenskt er,“ segir Hrönn og útskýrir nánar: „Ég held að Íslendingar eigi eftir að standa þéttar saman. Ég held að við verðum heilsteyptari þjóð ef við sinnum menningararfleifð okkar betur.“
Brauðsúpa og fiskibollur
Á kaffihúsinu við Lokastíg er líka hægt að fá rétt dagsins en í vikunni sem blaðamaður leit inn var boðið upp á brauðsúpu, saltfisk, ofnbakaðan þorsk, fiskisúpu og fiskibollur með meðlæti. „Við höfum fengið góðar viðtökur hjá fólki í nágrenninu og fyrirtækjunum hérna í kring.“ Á Loka er enginn „brunch“ heldur „helgarverður“, sem Hrönn segir hafa mælst vel fyrir og eru réttirnir mismunandi eftir því hvort fólk heimsækir kaffihúsið á laugardegi eða sunnudegi. Til dæmis eru lummur með á laugardögum en rjómapönnukaka á sunnudögum. Kaffihúsið er jafnframt gallerí en í október skreyta myndir listakonunnar Aðalbjargar Erlendsdóttur veggina en hún sýnir íslensk fjöll, máluð á silki í sterkum litum, sem undirstrika tengsl Loka við hefðina.

bottom

Staðsetning

Lokastíg 28

101 Reykjavík

Opnunartími

Mán - Lau: 09:00-21:00

Sun: 11:00-21:00

Upplýsingar

S: 466-2828